Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 418. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 574  —  418. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Á eftir orðinu „örorkulífeyris“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: aldurstengdrar örorkuuppbótar.

2. gr.

    15. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Aldurstengd örorkuuppbót.

    Aldurstengd örorkuuppbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 12. gr. eða fullan örorkulífeyri skv. 29. gr. Aldurstengd örorkuuppbót greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Um uppbótina gilda ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr. og 2. málsl. 4. mgr., 12. gr. um búsetutíma og örorkumat og 5. mgr. 12. gr. um skerðingu vegna tekna að öðru leyti en því að skerðing aldurstengdrar örorkuuppbótar hefst ef tekjur eru hærri en 2.514.788 kr. á ári. Fjárhæð uppbótar, sbr. 2. mgr., miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. og 29. gr. eða uppfyllir skilyrði 8. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.
    Fjárhæð mánaðarlegrar aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 1. mgr., skal vera hlutfall af óskertum mánaðarlegum örorkulífeyri skv. 12. gr. og miðast við fæðingardag, sbr. eftirfarandi:
18 og 19 ára 100%
20 og 21 árs 95%
22 og 23 ára 90%
24 og 25 ára 85%
26 og 27 ára 80%
28 og 29 ára 70%
30 og 31 árs 60%
32 og 33 ára 50%
34 og 35 ára 40%
36 og 37 ára 30%
38 og 39 ára 20%
40 til og með 43 ára 10%
44 til og með 48 ára 5%
49 til og með 59 ára 2,5%
60 til og með 66 ára 1,5%
    Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004 og gilda um umsóknir eftir þann tíma.
    Þeir sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 12. gr., fullan örorkulífeyri skv. 29. gr. og endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð við gildistöku laganna eiga rétt á aldurstengdri örorkuuppbót án sérstakrar umsóknar og að öðrum skilyrðum uppfylltum. Miðast fjárhæð uppbótar við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. og 29. gr. eða uppfyllir skilyrði 8. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar Íslands hinn 25. mars 2003 gerði Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra samkomulag f.h. ríkisstjórnarinnar þann sama dag við Garðar Sverrisson, formann Öryrkjabandalags Íslands, um hækkun grunnlífeyris öryrkja. Samkomulagið var framhald af formlegum og óformlegum viðræðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands frá því í febrúar 2002 í tilefni af Evrópuári fatlaðra. Í viðræðunum lögðu forsvarsmenn Öryrkjabandalags Íslands áherslu á sérstöðu þeirra sem yngstir verða öryrkjar og vildu bæta hag þeirra sérstaklega.
    Meginmarkmið með frumvarpinu er að stíga fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Felur frumvarpið í sér breytingar á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Gert er ráð fyrir nýrri 15. gr. í lögunum sem fjalli um aldurstengda örorkuuppbót og greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 12. gr. laganna, fullan slysaörorkulífeyri skv. 29. gr. laganna eða endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Aldurstengda örorkuuppbótin lýtur sömu reglum og örorkulífeyrir varðandi búsetutíma, örorkumat og skerðingu vegna tekna. Fjárhæð uppbótar miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 12. gr. og 29. gr. laganna eða einstaklingur uppfyllti skilyrði endurhæfingarlífeyris skv. 8. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð. Gert er ráð fyrir að mánaðarleg fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar verði hlutfall af óskertum mánaðarlegum örorkulífeyri skv. 12. gr. laganna og miðist við fæðingardag. Er hlutfallið 100% þegar öryrki er 18 og 19 ára en lækkar hlutfallslega frá 20 ára aldri til og með 66 ára. Þá er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd aldurstengdu örorkuuppbótarinnar.
    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2004 og gildi um umsóknir sem berast Tryggingastofnun ríkisins eftir þann tíma. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem sótt hafa um eða fá greiddan örorkulífeyri, fullan slysaörorkulífeyri eða endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins við gildistöku laganna fái aldurstengda örorkuuppbót án þess að þurfa að sækja sérstaklega um uppbótina hjá Tryggingastofnun ríkisins.
    Gert er ráð fyrir að eftir 1. júlí 2004 verði lagt mat á það hvernig til hafi tekist við að koma sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, sbr. ákvæði 2. gr. frumvarpsins. Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993,
um almannatryggingar, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er samið í framhaldi af viðræðum við Öryrkjabandalag Íslands um hækkun lífeyris öryrkja með sérstakri áherslu á sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar ungir.
    Með frumvarpinu er lagt til að frá 1. janúar 2004 greiðist mánaðarleg aldurstengd örorkuuppbót, sem nemi tilteknu hlutfalli af fullum örorkulífeyri, þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 12. gr. laganna og fullan slysaörorkulífeyri skv. 29. gr. laganna eða endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Lagt er til að fjárhæð uppbótar miðist við þann aldur þegar einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki. Einstaklingar á aldrinum 18–19 ára fá uppbót er nemur fullum grunnlífeyri og lækkar uppbótin í þrepum eftir því sem nær dregur 67 ára aldri og fellur þá niður. Er við það miðað að þeir sem verða ungir öryrkjar fái hærra hlutfall grunnlífeyris en þeir sem verða öryrkjar síðar á ævinni fái nokkru minni hlut, enda má gera ráð fyrir að þeir hafi tekjur úr lífeyrissjóði. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs af því verði um 1 milljarður kr. í auknar lífeyrisgreiðslur á ári. Því til viðbótar er um 10 m.kr. tímabundinn kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins við að innleiða hinn nýja lífeyri.